Ferill 450. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 450 . mál.


Ed.

1066. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Annar minni hl. nefndarinnar styður tillögu í frumvarpinu um lækkun tekjuskatts úr 50% í 45% og þá tillögu meiri hl. nefndarinnar að lengja þann frest, sem menn hafa til að kaupa ný hlutabréf í stað eldri sem hafa verið seld, úr 15 dögum í 30.
    Annar minni hl. telur hins vegar óskynsamlegt og órökrétt að draga úr heimildum til framlaga í fjárfestingarsjóð úr 15% í 10% eins og gert er ráð fyrir í 3. gr. frumvarpsins. Þessi heimild er til þess fallin að draga úr áhrifum þeirra miklu sveiflna, sem einkenna íslenskt efnahagslíf, á afkomu og umsvif atvinnufyrirtækja. Er raunar fremur ástæða til þess að auka við heimildir skattalaga til sveiflujöfnunar í atvinnulífinu en að draga úr þeim.
    Annar minni hl. nefndarinnar telur hins vegar brýnt að þær takmörkuðu lagfæringar á ákvæðum skattalaga, sem frumvarpið miðar að, nái fram að ganga, enda mun hér um að ræða efndir á samkomulagi við samtök atvinnurekenda þar að lútandi.
    Annar minni hl. nefndarinnar leggur þó til að gerðar verði tvær breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er eðlilegt að þær fjárhæðir, sem heimilt er að draga frá skattskyldum tekjum, standi óhaggaðar miðað við núgildandi lagaákvæði, en upphæðir þessar fylgja verðlagsþróun. Flytur 2. minni hl. breytingartillögu um þetta efni. Í öðru lagi er gerð tillaga um að í stað þess að maður þurfi að eiga hlutabréf í a.m.k. tvö ár til að öðlast frádrátt þurfi hann að eiga þau yfir a.m.k. tvenn áramót. Telur 2. minni hl. það nægilega langan tíma til þess að ná þeim markmiðum sem stefnt er að í frumvarpinu.
    Annar minni hl. styður breytingartillögu meiri hl. um skattalega meðferð á greiðslum ríkissjóðs til bænda vegna sölu þeirra á fullvirðisrétti, en um hana náðist samkomulag í nefndinni.
    Annar minni hl. nefndarinnar styður einnig þau sjónarmið sem koma fram í breytingartillögu meiri hl. við 106. gr. laganna, en getur alls ekki fallist á að skattstjóra sé heimilt að bæta allt að 25% álagi ofan á áætlaðan skattstofn þess sem skilar ekki framtali á réttum tíma. Slíkt álag má alls ekki nema meira en 15% og gerir 2. minni hl. breytingartillögu við breytingartillögu meiri hl. í þá veru.
    Að þessu athuguðu mælir 2. minni hl. með framgangi frumvarpsins, með þeim breytingum sem hann gerir tillögur um á sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 18. mars 1991.



Ey. Kon. Jónsson,


frsm.

Halldór Blöndal.